Tuesday, September 2, 2008

Shorts & Docs: Sagan af Sveini.


Laugardaginn síðasliðinn fór ég á heimildamynd um Svein Kristin Björnsson, öðru nafni Edgar Holger Cahill, athafnamann og Vestur-Íslending. Hún sagði frá ævi þessa stórmerkilega manns frá fæðingu til dauða. Þrátt fyrir heillandi umræðuefni og merkilega ævi, bæði sorglega og skemmtilega, þá verð ég að segja að mér fannst heldur illa farið með efnið. Það er oft erfitt að leggja dóm á svona heimildamyndir án þess að það komi niður á efninu, en ég var óánægður með alla vinnslu myndarinnar. Hún samanstóð af viðtölum við dóttur hans og fleiri spekinga ásamt því að skjóta inn myndum af manninum frá hinum og þessum stöðum. Tónlistin var svosem ágætis viðbót en kom þó oft á einkennilegum stöðum. Myndaklippurnar litu út fyrir að vera búnar til í Word og drápu hálfpartinn stemmninguna sem fylgdi sögunni. Þó svo margir kippi sér ekki upp við þetta fór það alveg óskaplega í taugarnar á mér og gerði það að verkum að mér leiddist myndin frekar.
Það var þó stórmerkilegt að heyra um ævi þessa manns sem var m.a. ráðgjafi í Hvíta húsinu og safnstjóri í Bandaríkjunum auk þess að gefa út slatta af bókum um bandaríska almenningslist.

Friday, August 29, 2008

Shorts & Docs: Mini Panorama stuttmyndir.

Í dag skellti ég mér á Mini Panorama stuttmyndirnar og líkaði misvel. Það voru fimm stuttmyndir í einni atrenu og byrjaði á mynd sem heitir Flatmates eftir Magnus Mork.
Flatmates flallar um tvo unga drengi sem flytja inn saman sem vinir en annar þeirra hefur eitthvað meira í huga. Ég var ekkert sérstaklega hrifinn af þessarri stuttmynd og ég veit ekki hvort það var vegna slæmra myndgæða eða slaks handrits, en hún snerti mig ekki. Hún var dálítið yfirborðskennd og persónurnar náðu engri dýpt heldur voru þeir bara tveir drengir sem maður vissi voða lítið um. Annað sem naði engri fótfestu var stelpan sem var að hitta Hampus og virtist vera að gefa Björn auga, en ekkert varð úr því. Í heildina litið var þetta samt ekkert slæm mynd heldur skyldi hún ekkert eftir sig og söguþráðurinn frekar klisjukenndur.
Næsta mynd sem var sýnd hét The Great Magician eða Den Store Trollkarlen eftir Elisabeth Gustafsson.
Hún er byggð á franskri sögu eftir René Daumai og kemst það vel til skila þar sem sögumaður talar yfir alla myndina. Það er ákveðin barnabókakeimur yfir henni allri þó hún sé ekki beint gleðileg mynd og meira að segja frekar dapurleg. Hún er frekar frönsk í anda og minnir að ákveðnu leit á myndir á borð við Amélie en þegar svona lítil mynd ætlar sér eitthvað svona stórt með tæknibrellur og gamalt umhverfi fer það og á mis. Maður fann svosem ekkert serstaklega fyrir því í þessari mynd en það kom þó stundum fyrir. Leikurinn var allur frekar slap-stick kenndur og söguþráðurinn bauð að sjálfsögðu upp á það. Sagan var ágæt en lítið pun í henni og lítið meira en bara ágætis skemmtun.
Á eftir henni fylgdi svo Situation Frank eftir Patrik Eklund sem mér fannst með betri myndunum sem voru sýndar í þessari sýningu. Hún tekur á vandamálum þess að missa konuna sína af völdum sjálfsmorðs og blandar skemmtilega saman, annars vegar þunglynd og drama og hins vegar gríni og fyndnum aðstæðum. Myndin er full af skemmtilegum senum sem er frekar sjaldséð í svona stuttmyndum og nær að skapa góða stemmningu og þá aðallega með góðum tímasetningum í leiknum og góðri klippingu. Hún gerir að ákveðu leiti grín að hinu vel þekkta þunglyndi Svía og nær að halda mjög góðu flæði í gegn um alla myndina. Hún er kannski heldur farsakennd á stundum en það fór ekki mikið fyrir brjóstið á mér. Efst í minni er fáránleg leikhúsferð og skemmtileg golf-tilraun sem kallaði fram góða stemmnigu og kom með góðan contrast gagnvart dramanu sem fyldi því að verða skyndilega ekkill. Í þokkabóta var hún líka vel unnin á alla vegu.
Næsta mynd kom nú heldur betur á óvart en hún hét Love and War eftir Fredrik Emilson. Ég var ekki búinn að lesa neitt um þessa mynd og hélt að ég væri að fara að detta i eitthvern heavy stríðsástarsögu pakka um seinni heimsstyrjöldina eða Víetnam eða eitthvað á borð við það. En nei, heldur betur ekki. Að vísu fjallaði sagan um par sem kynnist á stríðstímum og þau eru bæði kölluð til stríðsþjónustu, hann í flugherinn og hún að hjúkra hermönnum. En það sem skildi þessa mynd frá öðrum stríðsmyndum var það að karlinn var bangsi og konan kanína. Í þokkabót var svo allt heila klabbið sungið í óperustíl. Myndin var öll á ítölsku og ótextuð en það þurfti í raun ekki neinn texta þar sem myndmálið sagði alla söguna. Frekar áhugaverð tækni var notuð við gerð þessarar myndar; eitthverskonar samplanda af brúðuleik, stop-animation og CA (Computer Animation). Brúðurnar voru allar frekar scary á eitthvern furðulegan hátt og þá aðallega krókódílarnir sem áttu að tákna Víetnam, Japan eða eitthvað annað Asíuríki. Myndin var full af frábærlega súrum augnablikum sem var toppað með óperusöng. Mæli með þessari mynd ef mann langar að hlæja dálítið.
Síðasta myndin var reyndar ekki rétt mynd, en myndin sem átti að vera í sýningu heitir The Walk eftir Csaba Bene Perlenberg. Í staðin var sýnd mynd sem heitir The Time is Now eða Medan Tid År eftir Maria Fredriksson sem er reyndar heimildamynd, ólíkt hinum sem voru allar stuttmyndir, um tvær gamlar kellingar sem eru að leita sér að manni á netinu. Önnur þeirra fer á deit á Skáni þar sem allt fer í vaskin vegna þess að drukkin sonur hennar skemmir deitið með endalausu röfli og óviðeigandi kommentum. Sú sena var reyndar stórskemmtileg og mydin í heildina ágætlega unnin. Hún var smá tíma að komast í gang en samt ekkert óþægilega lengi og skilaði sínu þó lítið hafi verið varið í endann. Myndin var ágæt allt upp að þeim punkti þegar maður fattar að maður er að horfa á mynd um tvær gamlar kellingar að reyna að fá sér á broddinn.

Í heildina litið var ég þó ekki fyrir vonbrigðum með þessa sýningu og skemmti mér ágætlega. Ég vona bara að næsta sýning sem ég fer á verði jafn ánægjuleg.